Skógarland vill verða heilsuskóli

Leikskólinn Skógarland hefur sótt um inngöngu í Samtök heilsuskóla, en þau hafa að markmiði að auka gleði og vellíðan leikskólabarna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi. Á starfsdegi leikskólans, þann 10. september s.l., var Unnur Stefánsdóttir fengin til að fræða starfsfólk skólans um Samtök Heilsuleikskólanna. En Unnur er hugmyndasmiðurinn á bak við heilsustefnuna. Það er ekki svo fjarlægur draumur að Skógarland verði einn af þessum viðurkenndu heilsuskólum, þar sem skólinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslur á hreyfingu og hollt mataræði.

Eftir áhugaverða kynningu á heilsustefnunni og verkefnavinnu var ákveðið að Skógarland sækti formlega um inngöngu í Samtök heilsuleikskólanna. Reiknað er með að það taki um sex mánuði að tileinka sér réttu vinnubrögðin og hefja skráningar í Heilsubók barnsins, en bókin fylgir barninu alla leikskólagönguna á Skógarlandi. Heilsubókin hefur verið í stöðugu endurmati og er ný útgáfa væntanleg í nóvember. Góðar fyrirmyndir eru mikilvægar og jákvætt hugarfar gagnvart allri hreyfingu og heilsurækt. Meðal annars þess vegna hófst markviss heilsuefling meðal starfsfólks skólans í haust með skipulögðum gönguferðum tvisvar í viku sem gefist hafa vel.


Um sögu heilsuskóla, tekið af Heilsuskólavefnum 

Heilsuefling í skólum byrjaði 1994 sem samstarfsverkefni Heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins við skóla á öllum skólastigum. Evrópuverkefni heilsuskóla hófst 1999 og lauk 2002 og voru 4 skólar og Heilsugæslan í Kópavogi þátttakendur. Afrakstur Evrópuverkefnisins var viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram koma markmið heilsueflingar í skólum og þau grundvallarviðmið sem heilsuskólar eiga að starfa út frá.

Unnur Stefánsdóttir leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi hafði frumkvæði að mótun heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi. Kennarar Urðarhóls gáfu út Heilsubók barnsins og hönnuðu merki heilsuleikskólans. Fáni með heilsumerkinu er sú viðurkenning sem leikskólarnir fá afhentan ásamt viðurkenningarskjali, þegar þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem heilsuleikskóla ber að gera. Merki heilsuleikskólans táknar Heildin samofin þar sem barnið er í miðjunni umvafið áhersluþáttum heilsustefnunnar og leikskólaumhverfinu, sem vinna saman að því að þroska barnið.
Síðar tóku fleiri leikskólar upp heilsustefnuna og árið 2006 voru stofnuð Samtök heilsuleikskóla og sendu Sex leikskólar fulltrúa á stofnfundinn og eru það fyrstu skólarnir sem fengu viðurkenningu. Fyrsti aðalfundur Samtakanna var haldinn í Kópavogi 17. mars 2006 og var Unnur Stefánsdóttir kosin fyrsti formaður þeirra. Fyrsta verkefni samtakanna var að endurskoða viðmið heilsuleikskóla sem voru samþykkt á fyrsta aðalfundi samtakanna. Næsta stóra verkefnið var að halda ráðstefnu fyrir allt starfsfólk skólanna 10. október 2008 í Reykjanesbæ. Efni ráðstefnunnar var andleg og líkamleg vellíðun kennara í heilsuleikskólum.

Þetta starfsár er verið að endurskoða Heilsubók barnsins, viðmið fyrir heilsuleikskóla og að undirbúa heilsubrautina, sem er sú leið sem skólar fara sem eru að undirbúa sig fyrir heilsustefnuna.

Alls hafa 11 leikskólar hlotið viðurkenningu sem Heilsuleikskólar. Þeir eru eftirfarandi:
• Urðahóll í Kópavogi árið 1996
• Krókur í Grindavík 2003
• Garðasel á Akranesi 2004
• Heiðarsel í Reykjanesbæ 2004
• Suðurvellir í Vogum 2005
• Árbær í Árborg 2007
• Krógaból á Akureyri 2007
• Krakkakot á Hornafirði 2008
• Laufás við Þingeyri 2008
• Kór í Kópavogi 2008
• Fálkaborg í Reykjavík 2009