Sjöundi Ormurinn

Frá ræsingu keppninnar í fyrra.
Frá ræsingu keppninnar í fyrra.

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn fer fram laugardaginn 11. ágúst. Þetta er í sjöunda sinn sem  keppnin er haldin. Tour de Ormurinn er skemmtilegur viðburður sem haldinn er í dásamlega fallegu umhverfi og er metnaður lagður í að umgjörð keppninnar sýni austfirska menningu, sögu og náttúru.

Keppnisvegalengdir eru tvær. Annars vegar 68 km og hins vegar 103 km og er boðið upp á bæði einstaklings- og liðakeppni. Hjólað er umhverfis Löginn í styttri hringnum en inn í botn Fljótsdals í þeim lengri. Rás- og endamark er á Egilsstöðum.

Í Tour de Orminum er mikil áhersla lögð á að tryggja öryggi keppenda og er unnið í góðu samstarfi við Vegagerð og lögreglu. Fjöldi sjálfboðaliða kemur svo að framkvæmd keppninnar og hefur öflug og sýnileg brautarvarsla fengið mikið hrós síðustu ár.

Opið er fyrir skráningar til kl. 20 fimmtudagskvöldið 9. ágúst. Hægt er að skrá sig á slóðinni www.netskraning.is/ormurinn og allar upplýsingar er að finna á heimasíðu Ormsins http://tourdeormurinn.is og á Facebook síðu keppninnar www.facebook.com/TourDeOrmurinn.