Samkomulag um launagreiðslur slökkviliðsmanna

Í dag, 30. ágúst kl. 13.00, var undirritað samkomulag milli Brunavarna á Austurlandi og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um launagreiðslur til slökkviliðsmanna á svæði Brunavarna á Austurlandi. Með samkomulaginu draga slökkviliðsmenn á Héraði uppsagnir sínar til baka.

Samkomulagið gerir ráð fyrir greiðslum til slökkviliðsmanna fyrir störf þeirra vegna vakta á vegum rekstrarsamlagsins. Greitt er fyrir starfshlutfall sem getur verið mismunandi milli starfsheita og einstakra starfsstöðva vegna meðal annars mismunandi umfangs.

Um leið og samkomulagið er gert undirrita slökkviliðsmenn yfirlýsingu um að þeir dragi uppsögn sína, sem taka á átti gildi 1. september, til baka.

Í samkomulaginu kemur fram að slökkviliðsmönnum er kunnugt um að uppi eru hugmyndir um stofnun atvinnuslökkvideildar á Fljótsdalshéraði. Í þeim efnum eru í gangi viðræður við Flugstoðir ehf., Landsvirkjun, Landsnet og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Komi til stofnunar slíks liðs fyrir lok þessa samkomulags er aðilum ljóst að taka þarf upp samninga áður en samkomulagi þessu lýkur á starfsstöð á Egilsstöðum.

Aðilar eru sammála um að grundvöllur samkomulagsins er að vinna sameiginlega að uppbyggingu öflugra brunavarna á svæðinu og að þjónusta á þessu sviði verði enn betri en hún hefur verið fram að þessu.  Aðilar eru einnig sammála um að beita sér fyrir bættum starfsanda og að vinna sameiginlega að stofnun atvinnuslökkvideildar á Héraði.

Samkomulag þetta gildir frá 1. janúar 2007 til 30. nóvember 2008.