Reglur um sí-og endurmenntun samþykktar

Á fundi bæjarstjórnar þann 3. janúar sl. voru samþykktar reglur Fljótsdalshéraðs um sí- og endurmenntun.

Með reglunum er settur rammi um sí- og endurmenntun starfsfólks sveitarfélagsins og það fjármagn sem sveitarfélagið leggur fram árlega til þeirra mála. Þá kemur þar meðal annars fram hvað starfsmenn þurfa að skila miklum tíma árlega í sí- og endurmenntun til að eiga rétt á greiðslu símenntunarálags og hvernig sveitarfélagið kemur til móts við starfsmenn í framhaldsnámi og ýmislegt fleira.

Reglur um sí- og endurmenntun starfsfólks Fljótsdalshéraðs er hægt að skoða hér á heimasíðunni. Upplýsingar um námsframboð á vorönn 2007 verða settar inn á heimasíðuna á næstunni.

Á síðasta ári var í samvinnu við Þekkingarnet Austurlands unnið að gerð sí- og endurmenntunaráætlunar fyrir starfsmenn Fljótsdalshéraðs. Í kjölfar könnunar meðal þeirra á þörf  og áhuga á sí- og endurmenntun, var sett upp fimm missera fræðsluáætlun, sem gert er ráð fyrir að endurskoðuð verði í byrjun hverrar annar. Gefinn er út bæklingur á vegum ÞNA á hverri önn þar sem námsframboðið er kynnt auk þess sem þær upplýsingar verður að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Á haustönninni í fyrra voru haldin ýmis námskeið sem starfsmenn sóttu í nokkrum mæli og reyndist hún ágætur prófsteinn á þetta fyrirkomulag, þó ákveðna umgjörð og reglur vantaði til að styðjast við.