Ný heimasíða Fljótsdalshéraðs

Nýja heimasíðan hefur verið í vinnslu síðan á haustdögum 2015. Sveitarfélagið samdi við hugbúnaðarhúsið Stefnu á Akureyri um gerð vefsíðunnar, en vinnuhópur nokkurra starfsmanna Fljótsdalshéraðs hélt utan um verkið og setti upp texta og naut við það aðstoðar fyrirtækisins Bókstafs á Egilsstöðum.
Stefna hefur einnig gert vefi fyrir skóla Fljótsdalshéraðs og hefur samstarfið við Stefnu gengið vel. Þeir hafa einnig gert margar heimasíður fyrir sveitarfélög, sem hafa skorað hátt í úttektum á opinberum vefjum.

Nýi vefurinn gefur kost á ýmsum nýjungum sem auðvelda blindum og sjónskertum nýtingu á vefnum, svo sem með upplestri og breytingum á letri. Einnig er hann skalanlegur sem gerir hann aðgengilegan fyrir ýmis snjalltæki.

Fólk er hvatt til að til að láta vita ef menn sjá eitthvað sem betur má fara og er sérstakur athugasemdahnappur á forsíðu.

Það er von Fljótsdalshéraðs að þessi nýja heimasíða auðveldi íbúum aðgengi að ýmsum upplýsingum um sveitarfélagið og starfsemi þess.

Fljótsdalshérað vill hér nota tækifærið og þakka AN-lausnum fyrir áralanga þjónustu við gömlu heimasíðuna.