Leikskólabörn heimsóttu bæjarskrifstofuna

Heimsókn leikskólabarna á bæjarskrifstofuna á Egilsstöðum
Heimsókn leikskólabarna á bæjarskrifstofuna á Egilsstöðum

Að venju glöddu elstu leikskólabörnin á leikskólanum Tjarnarskógi starfsfólk bæjarskrifstofunnar með nærveru sinni á degi leikskólans, 6. febrúar. Í þetta sinn er elsti árgangur leikskólans svo fjölmennur að hópunum var tvískipt svo hægt væri finna sæti fyrir þau öll í bæjarstjórnarsalnum þar sem bæjarstjóri og fræðslustjóri tóku á móti hópunum.

Það er ekki síður eftirvænting og gleði hjá starfsfólki en hjá börnunum þennan dag og bros á brá á flestum skrifstofum þegar börnin koma kát í bragði. Hópurinn skemmti gestgjöfum með fallegum söng og þótti einstakt hversu vel þau kunnu og fóru með hina ýmsu söngtexta. Leikskólabörnin koma ævinlega með góðar hugmyndir eða ábendingar um eitthvað sem að þeirra mati má betur fara og er það skilmerkilega skráð og komið í farveg þegar hægt er að bregðast við erindum þeirra og verður svo einnig gert í þetta sinn.