Kærleikskúlur og jólaóróar til styrktar fötluðum


Félagar í Soroptimistaklúbbi Austurlands selja kærleikskúlur og jólaóróa í Nettó á Egilsstöðum dagana 7., 8. og 15.desember. Einnig verða þeir á markaðinum í Barra þann 14.desember. Jafnframt verða munirnir til sölu á opnunartíma í Samkaup á Seyðisfirði og í verslunum Birtu á Egilsstöðum og á Reyðarfirði.

Sala þessara muna er árlegt fjáröflunarverkefni Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og renna 1.000 krónur af andvirði hvers hlutar sem selst hér til fatlaðra barna á Austurlandi.

Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í áttunda sinn. Ágóðinn hefur til dæmis verið notaður til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt íþróttamann af svæðinu til þátttöku á vetrarólympíuleikum fatlaðra. Féð sem kemur inn nú verður varið til kaupa lyftustól fyrir fatlaða í sundlaugina á Egilsstöðum.

Að þessu sinni er það listamaðurinn Ragnar Kjartansson sem er hönnuður kúlunnar og nefnir hann verk sitt Hugvekju. Höfundur jólaóróans er Siggi Eggertsson sem er sjálfstætt starfandi listamaður í Berlín. Jólaóróann skreytir að þessu sinni jólasveinninn Gluggagægir og fer sem fyrr saman listmunur og ljóð. Ljóðasmiðurinn er Vilborg Dagbjartsdóttir sem leiðir lesendur á æskuslóðir á Vestdalseyri.