Hreyfivika 2019 á blússandi ferð

Frábær mæting var á fjölskylduhjóladag Þristar og Vasks
Frábær mæting var á fjölskylduhjóladag Þristar og Vasks

Frábær mæting var á fjölskylduhjóladag Þristar og Vasks í gærkvöldi, en það var Ungmennafélagið Þristur sem stóð fyrir þeim viðburði.

Í morgun, þriðjudaginn 28. maí, hittust morgunhressar útivistartýpur í Selskógi og hlupu hringinn. Seinna í dag verður svo fjölskylduæfing í frjálsum íþróttum á Vilhjálmsvelli klukkan 16:30, þar sem gamlar frjálsíþróttakempur og aðrir geta látið ljós sitt skína. Að auki verður Prjónaganga frá Safnahúsinu klukkan 17:00, en það er glænýr og æsispennandi viðburður fyrir prjónara á öllum aldri.

Þá er opin götuhjólaæfing klukkan 19:30 sem hefst á planinu við Selskóg. Lítið hefur verið um götuhjólreiðar á Héraði hingað til en Ungmennafélagið Þristur ætlar að breyta því.

Miðvikudaginn 29. maí verður Fílafótbolti í boði Heilsuhéra á Vilhjálmsvelli, opin æfing í Brazilian Jiu-jitsu hjá CrossFit Austur og opin hjólaæfing hjá Hjólakrafti Þristar.

Ekki er hægt að láta hjá líða að hrósa Ungmennafélaginu Þristi fyrir nýbreytni og elju í Hreyfiviku, nú sem áður, en á Facebook síðu félagsins birtist á hverjum degi í vikunni hugmynd að fjölskylduvænni hreyfingu sem hægt er að stunda á Fljótsdalshéraði. Í gær, mánudag, lögðu þau til göngu að Ljósárfossi í Ljósá, og í morgun minntu þau á plankaáskorunina sem fer fram á Bókasafni Héraðsbúa. Algjörlega frábært framtak og minnir okkur á hvað það er margt sem sveitarfélagið okkar hefur upp á að bjóða.

Það er óhætt að segja að fjölbreytnin sé í fyrirrúmi í Hreyfiviku á Fljótsdalshéraði 2019 og megum við vera stolt og glöð með það frábæra starf sem boðið er upp á í sveitarfélaginu.
Verum með og tökum þátt!