Hjólakraftur Austurland....hvað er nú það?

„Hjólakraftur – Austurland“ er frábært tækifæri fyrir alla á aldrinum 11-18 ára sem langar að hreyfa sig og hafa gaman. Boðið verður upp á hjólaæfingar á mánudögum og miðvikudögum kl. 17.00 frá 1. apríl. en á æfingum verður aldurshópnum skipt upp í nokkra flokka. Þá mun Þorvaldur Daníelsson hjólari með meiru, sem sér um Hjólakraftsverkefni víða um land, heimsækja Austurland hálfsmánaðarlega og vera með hjólaæfingar og gleði á föstudögum og laugardögum. 


Hjólakraftskrökkum um allt land býðst síðan að taka þátt í WOW cyclothoninu sem fer fram um miðjan júní. Einnig verður boðið upp á sérstakan unglingaflokk í Tour de Orminum 13. ágúst, svo þeir sem vilja keppa fá eitthvað við sitt hæfi. 

En þetta verkefni er ekki síður ætlað þeim sem langar bara að hreyfa sig og hafa gaman í góðum félagsskap og langar ekki vitundarögn í keppnisíþróttir. Auk þess að vera hrikalega dugleg að hjóla, verða æfingar brotnar upp annað slagið með annarskonar útivist og jaðaríþróttum. Mikið er lagt upp úr jákvæðni, hvatningu og gleði á æfingum og þar er hver á sínum forsendum. 

Æfingar hefjast 1. apríl en þá kemur Þorvaldur Hjólakraftakarl í fyrstu ferð austur. (Þetta er ekki aprílgabb :) ).

Heimahjólaþjálfarar verða Adda Steina Haraldsdóttir, Gauti Brynjólfsson, Hildur Bergsdóttir og Þórdís Kristvinsdóttir.

Þátttökugjald er kr. 2.500 á mánuði. Þórdís tekur við skráningum í netfangið gautdisa@simnet.is

Fyrir foreldra sem langar að vera með í fjörinu þá er rétt að benda á Facebookhópinn „Hjólaormar á Héraði“. En þar er vettvangur fullorðinna hjólara á öllum getustigum og Þorvaldur verður með æfingar fyrir þann hóp líka í ferðunum sínum austur.  

Allar nánari upplýsingar á Hjólaormar á Héraði https://www.facebook.com/Hj%C3%B3lakraftur-Austurland-988568274565920/?fref=ts