Handverk og hefðir: Málþing, búningaráðgjöf, sýningaropnun

Minjasafn Austurlands og Hallormsstaðaskóli standa fyrir málþinginu í samstarfi við Heimilisiðnaðarf…
Minjasafn Austurlands og Hallormsstaðaskóli standa fyrir málþinginu í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands.

Það verður mikið um að vera í Minjasafni Austurlands á laugardaginn, 1. júní, en þá fer fram málþingið Handverk og hefðir – Hvaðan komum við? Hvert stefnum við? Hvar liggja tækifærin? Þá verður einnig opnuð ný sýning í safninu og fólki gefst kostur á að koma með þjóðbúningana sína og fá ráðgjöf sérfræðinga um allt sem þeim tengist.

Það eru Minjasafn Austurlands og Hallormsstaðaskóli sem standa fyrir málþinginu í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Málþingið er upphaf á samstarfi um námskeiðahald sem þessar stofnanir hyggjast fara í þar sem þjóðlegar hefðir og aðferðir verða í hávegum. Fyrirlesarar koma víða að af landinu en eiga það allir sameiginlegt að brenna fyrir íslensku handverki og handverkshefðum. Margrét Valdimarsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélagsins flytur erindi sem ber yfirskriftina „Hamingjan býr í handverkinu“, Kristín Breiðfjörð formaður þjóðháttafélagsins Handraðans mun kynna starfsemi félagsins og Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir, ein af Spunasystrum, mun fjalla um nýtingu á eigin afurðum svo eitthvað sé nefnt.

Að málþingi loknu gefst gestum síðan kostur á að koma með þjóðbúninga og fá ráðgjöf sérfræðinga um hvaðeina sem þeim viðkemur. Viðburðurinn nefnist Út úr skápnum – þjóðbúningana í brúk! og er haldinn í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélagið en félagið hefur staðið fyrir sambærilegum viðburðum víða um land. Eins og nafnið gefur til kynna snýst hann um að ná þjóðbúningum landsmanna út úr skápunum og koma þeim í brúk. Sérfræðingar í búningasaumi og búningasilfri munu veita ráðgjöf um allt sem viðkemur íslensku þjóðbúninguma, s.s. varðveislu, breytingar, endurbætur, hvernig á að klæðast þeim og fleira.

Málþingið hefst klukkan 13:00 og stendur til 15:00. Að því loknu hefst búningaráðgjöfin og þá verður einnig opnuð lítil sýning á Minjasafninu með peysufataslifsum úr safnkosti safnsins.