Hægt að læra kvikmyndagerð á Eiðum

Dagana 24. - 30. maí mun Kvikmyndaskóli Íslands hreiðra um sig á menningarsetrinu Eiðum. Þar munu hópur útskriftarnema ásamt kennurum bjóða íbúum Austurlands á öllum aldri upp á ókeypis námskeið í fjöldamörgum greinum er snúa að kvikmyndagerð og jafnframt kynna kvikmyndaskólann. Sett verður upp fullkomið stúdíó á Eiðum með 12 tölvum og öllum græjum sem til þarf. Einnig mun hópurinn vinna að mynd um ferðina og sýna útskriftarverkefni sín.

Þetta er í fyrsta skipti sem Kvikmyndaskóli Íslands kemur til Austurlands og er þessi heimsókn að frumkvæði Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs - miðstöðvar sviðslista á Austurlandi í gegnum vaxtarsamningsverkefni miðstöðvarinnar - Cinema Maximus. Tilgangur dvalarinnar er að kynna kvikmyndaskólann fyrir Austfirðingum og jafnframt efla þekkingu kvikmyndagerðarlistarinnar í fjórðungnum.

Böðvar Bjarki Pétursson er stofnandi Kvikmyndaskóla Íslands. Hann er kvikmyndagerðarmaður og ötull talsmaður kvikmyndagerðarnáms á Íslandi. Þessa dagana vinnur skólinn að því að verða viðurkenndur á háskólastigi en hann er núna viðurkenndur á framhaldsskólastigi. Nemendur hans geta valið um ólíkar námsleiðir sem eru 120 eininga brautir og lýkur með diploma í viðkomandi grein.

Skráning á námskeið er á netfangið: mmf@egilsstadir.is  - Nánar auglýst í Dagskránni á Austurlandi, á heimasíðu MMF og á Sláturhúsið á Facebook.

Aðeins 12 sæti er í boði á hverju námskeiði sem eru eftirfarandi:

1. Handritsgerð
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Farið yfir alla helstu grunnþætti í handritsgerð fyrir kvikmyndir. Fjallað um uppsetningu og frágang á handritum. Hver og einn nemandi þarf að vera með hugmynd að leikinni stuttmynd sem verður unnið með á námskeiðinu.

2. Klipping
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Kennt verður á klippiforritið Final Cut. Nemendur gera ýmsar klippiæfingar og fá innsýn í starfssvið klipparans. Æskilegt að nemendur hafi góða tölvukunnáttu.

3. Hljóðvinnsla
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Kennt verður á hljóðvinnsluforritið Pro Tools. Nemendur gera ýmsar hljóðæfingar og fá innsýn í starfssvið hljóðhönnuðar í kvikmyndum. Æskilegt er að nemendur hafi góða tölvukunnáttu.

4. Kvikmyndataka
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Kennd verða ýmis grunnatriði er varða kvikmyndatöku. Nemendur læra að meðhöndla ljósabúnað og gerðar verða ýmsar æfingar.

5. Leikstjórn
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Fjallað verður um hlutverk leikstjórans í kvikmyndagerð. Fjallað verður um samband leikstjóra og leikara og unnar verða nokkrar senur.

6. Leiklist I
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Unnið verður með grunntækni leikarans, líkamlega tjáningu og spunavinnu með áherslu á kvikmyndaleik. Kynntar verða ýmsar aðferðir í leiksköpun og spuna þar sem leikgleðin verður í fyrirrúmi.

7. Leiklist II
7 klst. Hámarks nemendafjöldi: 12
Framhald af Leiklist I. Kafað verður dýpra í tjáningarform leikarans í kvikmyndum og unnar leiknar senur í spuna.

Heimasíða skólans er: http://www.kvikmyndaskoli.is
Heimasíða MMF er: http://mmf.egilsstadir.is