Góð berjaspretta

Þrátt fyrir kalt vor og frostnætur í júní virðist berjaspretta ætla að verða með ágætum á Héraði í sumar.  Mikið er af krækiberjum og þau orðin allvel þroskuð miðað við árstíma. 

Grænjaxlar á bláberja- og aðalbláberjalyngi gefa einnig góðar vonir.  Blómgun á hrútaberjalyngi er góð en þau eru sjaldan orðin þroskuð fyrr en í lok ágúst.  Einnig er gaman að sjá hve hrútaberjalyng dreifir sér og er nú orðið áberandi í gróðri á mun fleiri stöðum en áður.


Veðrið sem hefur leikið við mannfólkið undanfarið kemur sér líka vel fyrir berin og nokkrir heitir sólardagar geta skipt sköpum um þroska berjanna.