Fljótsdalshérað vátryggir hjá Sjóvá

Í dag var annars vegar undirritaður vátryggingasamningur milli Fljótsdalshéraðs og Sjóvá og hins vegar samstarfssamningur um forvarnir á milli Fljótsdalshéraðs og Sjóvá Forvarnahúss. Samningarnir eru gerðir í kjölfar útboðs þar sem tilboð Sjóvá var lægst.

Vátryggingasamningurinn nær til allra stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins og er gildistími hans fimm ár. Samningurinn tekur til allra vátryggingaviðskipta Fljótsdalshéraðs svo sem brunatrygginga húseigna, húseigenda-, lausafjár- og ábyrgðartrygginga bifreiða auk slysatrygginga starfsmanna og skólabarna.

Samstarfssamningurinn um forvarnir tekur m.a. til tjónagreiningar, áhættuskoðana og öryggis skólabarna og hefur það að markmiði að minnka líkur á hverskonar tjónum eða koma í veg fyrir að tjón verði á hagsmunum sveitarfélagsins, en ekki síst íbúum.