Fljótsdalshérað greiðir niður frítstundastarf barna

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum 5. september 2007 reglur um niðurgreiðslu þátttökugjalda barna og unglinga í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.

Samkvæmt þessum nýju reglum fá öll börn á aldrinum 6-18 ára (fædd 1989 – 2001) með lögheimili í sveitarfélaginu allt að 20 þúsund krónur í hvatapeninga á ári. Frá og með árinu 2008 skal greiðslan vera tvískipt, fyrri helmingur greiddur út á vorönn og seinni helmingur greiddur út á haustönn.  Á haustönn 2007 verða þátttökugjald hvers barns á aldrinum 6-18 ára (fædd 1989-2001 ) greidd niður um 7000 krónur .

Markmiðið með þessum reglum er að auka möguleika barna- og unglinga á Fljótsdalshéraði til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi,  þar með talið tónlistarnám, óháð efnahag fjölskyldna og ýta með því undir aukna hreyfingu og félagsþátttöku þeirra.

Skilyrði þess að umsækjendur geti nýtt sér  þessa hvatapeninga er að um skipulagt starf sé að ræða sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda og nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur og fari að þessu sinni fram á árinu 2007. 

Íþróttafélög, tómstunda- og frístundafélög og tónlistarskólar sem bjóða upp á tómstundastarf verða að vera með skilgreinda starfsemi og rekstur undir eigin kennitölu.  Félögin þurfa að reka starfsemi sína á ársgrundvelli og einstök tilboð til barna- og unglinga að standa eigi skemur en eina önn (10 vikur).

Hvatapeningana er ekki hægt að nota til þess að greiða fyrir aðbúnað, ferðalög eða annan tilfallandi kostnað vegna keppni eða þjálfunar.  Ekki er hægt að flytja ónýtta upphæð milli ára né heldur milli systkina.

Í október verður bréf sent til forráðamanna barna og unglinga í sveitarfélaginu með upplýsingum um framkvæmdina á endurgreiðslunum.