Fjórðu bekkingar í Fellaskóla verðlaunaðir


Á dögunum voru tilkynnt úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðalega skólamjólkurdagsins sem Mjólkursamsalan stóð fyrir meðal nemenda í 4.
bekk í grunnskólum landsins.


Mikill fjöldi teikninga barst í keppnina en tíu nemendur fengu viðurkenningu fyrir teikningar sínar. Nemendur í grunnskólum Fljótsdalshéraðs létu ekki sitt eftir liggja og tóku þátt í samkeppninni. Útkoman varð með stakri prýði því Bjarney Björt Björnsdóttir og Þuríður Nótt Björgvinsdóttir í Fellaskóla hlutu verðlaun fyrir myndir sínar. Þær fengu ásamt átta öðrum jafnöldrum sínum 25 þúsund krónur í verðlaun, peningarnir eiga að renna í bekkjarsjóð samkvæmt tilmælum MS.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra var formaður dómnefndar en aðrir fulltrúar í dómnefnd starfa hjá MS. Með keppninni vill Mjólkursamsalan vekja athygli á mikilvægu hlutverki mjólkur í daglegu mataræði barna.

Mjólkursamsölunni barst mikill fjöldi mynda frá 4. bekkingum í grunnskólum landsins. Erfitt þótti að velja milli myndanna enda mikið af góðum teikningum sem bárust keppninni. Teikningarnar verða notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdagsins 2008 og eru aðgengilegar á vef Skólamjólkur - www.skolamjolk.is

Mynd: Teikning Bjarneyjar Bjartar Björnsdóttur af skjöldóttum mjólkurkúm hlaut verðlaun.