Dagar myrkurs á Fljótsdalshéraði

Daga myrkurs er minnst um allt Austurlands í þessari viku með margs konar viðburðum. Á Fljótsdalshéraði er ýmislegt um að vera eins og hér fyrir neðan má sjá. Má þar nefna fjölskylduhjólaferð og rökkurrathlaup, draugasöguupplestur, íslensk-norsk útsaumssýning, villiréttahlaðborð og útgáfu- og afmælistónleikar, jasshátíð, leiklistarhátíð fyrir fullorðna, opið hús í Húsó og sýningin Plastfljótið.

Fjölskylduhjólaferð í húminu
Hjólakraftur UMF Þristar ætlar að taka forskot á Daga myrkurs sæluna og bjóða alla velkomna með í stuttan og þægilegan hjóltúr í húminu, mánudaginn 31. október kl 17:30. Markmiðið er að hreyfa sig saman og lýsa upp myrkrið með allskyns ljósum, endurskinsmerkjum og brosum. Þátttakendur eru því beðnir að taka sem mest af öllu þessu með sér. Túrinn endar í Selskógi við varðeld, kakó og kósýheit. Farið er frá Sundlauginni á Egilsstöðum.

Draugasögur í bókasafninu
Draugasögur verða lesnar á bókasafninu klukkan 17:30, 2., 3 og 4. nóvember. Allir velkomnir.

Festum þráðinn – samræður um útsaum spor fyrir spor
Sýningin Festum þráðinn – samræður um útsaum spor fyrir spor, verður opnuð í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum miðvikudaginn 2. nóvember kl. 17:00. Sýningin er afrakstur rannsókna norsku listakonunnar Ingrid Larssen á útsaumi kvenna, annars vegar á Austurlandi og hins vegar í Vesterålen í Noregi.
Á sýningunni verða til sýnis útsaumuð verk 10 kvenna, fimm frá hvorum stað. Allar eru þær á aldrinum 67-95 ára og eiga það sameiginlegt að hafa stundað útsaum frá unga aldri. Á sýningunni gefst gestum fágætt tækifæri til að skoða hefðbundnum útsaum sem unnin er af þekkingu og færni með fjölbreyttri tækni og litavali.
Þátttakendur:
Petra Friðrika Björnsdóttir, Guðný G.H. Marinósdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Jónína Fjóla Þórhallsdóttir, Kristbjörg Sigurðardóttir, Signe Kristensen, Helene Sophie Breivik, Greta Paulsen, Lilljan Greta Søyland, Eva Kristine Kvensjø.

Eftir opnun verður sýningin opin á opnunartíma Minjasafnsins, þriðjudaga – föstudaga frá 11:00 til 16:00. Hægt er að semja um opnun utan auglýsts opnunartíma með því að hafa samband í síma 471-1412 eða á netfangið minjasafn@minjasafn.is
Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóð Austurlands og Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls.

Þá verður útsaumskaffi og húslestur í rökkrinu á Minjasafninu föstudaginn 4. nóvember frá klukkan 16. Notarleg samverustund tileinkuð útsaumi og handavinnu. Gestir geta komið með eigin verkefni eða fengið að prófa á staðnum. Guðrún Sigurðardóttir mætir með sýnishorn og prufur, sýnir réttu handtökin og gefur góð ráð. Arndís Þorvaldsdóttir les kvæði og frásagnir sem tengjast handavinnu. 

Rökkurrathlaup í Selskógi fyrir alla fjölskylduna
Rökkurrathlaup er tilvalin samvera og skemmtun fyrir alla fjölskylduna sem fram fer í Selskógi miðvikudaginn 2. nóvember kl 17:30. Þátttakendur fá afhent kort með merkjum um hvar má finna endurskinsrathlaupspósta og leggja svo af stað, einir síns liðs eða saman í hóp, vopnaðir vasaljósum (sem hafa þarf meðferðis) í leit að þeim. Boðið verður uppá nokkrar vegalengdir og erfiðleikastig svo jafnt stórir sem smáir geta fundið braut við sitt hæfi. Rathlaupið hefst við leiktækin í Mörkinni og hægt að mæta frá klukkan 17:30 til 20:00 og taka hring, hver braut ætti ekki að taka meira en hálftíma.

Rafmagnslaust í Fellaskóla
Ekkert rafmagn verður notað í skólastarfinu í Fellaskóla föstudaginn 4. nóvember frá skólabyrjun til klukkan 11:00 og munu öll viðfangsefni taka mið af því.

Villiréttir og útgáfutónleikar í Valaskjálf
Boðið verður upp á freistandi villiréttamatseðil á Glóð veitingastað í Valaskjálf laugardaginn 5. nóvember. Borðapantanir í síma 471-1600.

Klukkan 21.00 hefjast tónleikar með Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Hljómsveitin hefur nýverið gefið út diskinn Austfirskir staksteinar sem verður kynntur á tónleikunum.
Seinni hluti dagskrárinnar er svo tileinkaður afmælisbarninu Friðjóni sem fagnaði 60 ára afmæli á þessu ári og leikur hljómsveitin eingöngu tónlist frá upphafsári rokksins 1956 sem er jafnframt fæðingarár Friðjóns. Og þar sem erfitt er að sitja undir þessu frábæra rokki þá verður dansað meðan líf er í húsinu. Aðgangseyrir er kr. 2.500.- við innganginn.

Jasshátíð Egilsstaða
Jasshátíð Egilsstaða verður haldin laugardaginn 5. nóvember í Sláturhúsinu og hefst hún klukkan 20:00.
Eftirfarandi aðilar koma fram á tónleikunum:
• Elísabet Ormslev, ein efnilegasta söngkona landsins sem gerði það gott í The Voice.
• Anya, efnilegasta tónlistarkona Austurlands aðeins 16 ára að aldri. Hún kemur frá Fáskrúðsfirði.
• Halldóra Malin, söng- og leikkona frá Seyðisfirði sem hefur sungið jazz lengi.
• Öystein Gerde, þessi frábæri gítarleikari frá Egilsstöðum leikur tónlist eftir sjálfan sig.
• Jón Hilmar ásamt hljómsveit sinni ásamt söngvurum.
• Máni & The Roadkillers, frábær hljómsveit frá Egilsstöðum sem spilar eigið efni.

Drekinn - Leiklistarhátíð fyrir fullorðna áhugaleikara á Austurlandi
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs stendur fyrir leiklistarhátíð fyrir fullorðna áhugaleikara á Austurlandi helgina 5. til 6. nóvember 2016. Ein helgi þar sem haldin eru námskeið fyrri daginn en seinni daginn er svokallað “pop up” leikhús, þar sem stuttverk eru lesin, æfð og sýnd á 2-4 tímum.

Til stendur að hátíðin sé haldin annað hvert ár svo hún lendi ekki á sama ári og Þjóðleikur. Öllum leikfélögunum á Austurlandi er boðið að taka þátt en hátíðin er auðvitað öllum opin. Áhersla verður lögð á að fá reynt og velmenntað sviðslistafólk til að kenna á hátíðinni, sérstaklega verður leitað eftir samstarfi við fólk búsett eða frá Austurlandi.

Kennarar eru: Halldóra Malin Pétursdóttir, Pétur Ármansson og Brogan Davison.

Verkefnið er tvíþætt:
Fyrst er auglýst eftir stuttum leikverkum, 10-20 mín. löngum. Af þeim eru svo valin af dómnefnd 3-4 verk sem svo verða æfð og sett upp á hátíðinni. Dómnefnd verður skipuð sjálfboðaliðum og ekki verður gefið upp hverjir sitja í þeirri nefnd. Ekki verða veitt verðlaun fyrir handritin heldur er þetta frekar hugsað sem tækfæri fyrir höfunda til að sjá verk sín flutt á sviði.

Sjálf hátíðin er svo líka tvískipt:
Á laugardeginum eru haldin námskeið. Þrír kennarar kenna 3 mismunandi námskeið í leikhústækni og raddþjálfun ogreynt verður að skipuleggja daginn þannig að þátttakendur geti sótt fleiri en 1 námskeið.
Á sunnudeginum er svo unnið með handritin. Þátttakendur geta valið um að vera leikarar eða leikstjórar. Tilvonandi leikstjórar hafa þá fengið handritið kvöldið áður en leikarar ekki fyrr en samdægurs. Leikmunir og búningar verða til staðar en ekki er lögð áhersla á umgjörð heldur innihald. Leikstjórinn vinnur svo með leikhópnum sem honum er úthlutað í 2-4 klukkutíma og svo er sýnt fyrir áhorfendur. En allt ferlið frá því að leikararnir fá handritið er opið almmenningi og gefst þannig áhorfendum kostur á að fylgjast með verki þróast af pappír á svið.

Opið hús í Húsó á Hallormsstað
Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað verður með opið hús laugardaginn 5. nóvember milli kl. 12:00 - 14:00.

Allir velkomnir að koma og skoða skólann sem nú nýlega var friðlýstur að hluta. Boðið verður upp á léttar veitingar og starfsemi skólans kynnt.

Plastfljótið - Listmenntun til sjálfbærni – Þátttökulist
Þann 5. nóvember 2016 opnar sýningin Plastfljótið – þáttökulistsköpun (Plastic River - Participatory artwork), í Snæfellsstofu, Vatnajökulþjóðgarði. Þar verður sýndur afrakstur listasmiðja í þátttökulistsköpun sem haldnar hafa verið víðs vegar síðustu misseri bæði hér á Austurlandi og í Rovaniemi, Lapplandi.
Um er að ræða sameiginlegt listaverk þar sem margir hafa lagt hönd á plóg og sýndar verða ljósmyndir af ferli verkefnisins. Flutt verða nokkur tónlistaratriði ungra og efnilegra tónlistarmanna úr fjórðungnum og boðið verður upp á léttar veitingar. Allir velkomnir!

Listrænn stjórnandi verkefnisins er listakonan Ólöf Björk Bragadóttir, kennslustjóri Listnámsbrautar ME (www.loabjork.com).

Kertadagur í Tjarnarskógi
Haldið verður upp á Daga myrkurs í Tjarnarskógi með því að börnin mála á krukkur og setja kerti í. Föstudaginn 11 . nóvember er foreldrum boðið að koma þegar þau mæta með börnin sín í leikskólann og kveikja með þeim á kertunum . Krukkurnar eru settar fyrir utan hverja deild.

 

Á vefsíðunni www.east.is má sjá upplýsingar um aðra helstu viðburði á Dögum myrkurs http://www.east.is/en/what-to-see-and-do/events