Bætt þjónusta við fólk með krabbamein og aðstandendur

Samkomulag um samstarf um ráðgjöf og forvarnir á milli Fljótsdalshéraðs, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Krabbameinsfélaganna á Austurlandi og Krabbameinsfélags Íslands þar sem áhersla er lögð á að styrkja forvarnir gegn krabbameinum og þjónustu við fólk með krabbamein og fjölskyldur þeirra var undirritað í morgun, 18. júní, í fundasal bæjarstjórnar.

Viðstaddir undirritunina voru Björgvin Kristjánsson, formaður Krabbameinsfélags Austurlands, Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Guðjón Hauksson forstjóri HSA, Halla Þorvaldsdóttir frá Krabbameinsfélagi Íslands, Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða, Jóna Björg Sveinsdóttir og Kristjana Björnsdóttir frá Krabbameinsfélagi Austurlands, Margrét Helga Ívarsdóttir, starfsmaður Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og Sigrún Lillie Magnúsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Fljótsdalshérað er eina sveitarfélagið á Austurlandi sem mun hafa aðkomu að þessu verkefni og gerir það með því að sjá starfsmanni verkefnisins fyrir skrifstofuaðstöðu auk aðgengis að fundaraðstöðu Krabbameinsfélaginu að kostnaðarlausu.