Bætt þjónusta við ferðamenn

Áætlunarferðir hefjast 1. júlí milli Egilsstaða og Végarðs í Fljótsdal. Þrjár ferðir verða farnar daglega, fyrsta ferð er frá Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum kl. 8:00 á morgnanna en síðasta ferð úr Fljótsdal er kl. 17:15. Stoppistöðvar eru á Skriðuklaustri, við Hengifoss og á Hallormsstað.

Það eru ferðaþjónustuaðilar á Hallormsstað og í Fljótsdal ásamt Vatnajökulsþjóðgarði, Landsvirkjun, Tanna Travel og Fljótsdalshreppi sem standa að áætlunarferðunum sem eiga að standa út júlí.

Í fréttatilkynningu segir: „Óhætt er að segja að óvíða á landinu sé á jafnlitlu svæði að finna viðlíka fjölbreytni í náttúru, áhugaverðum stöðum og þjónustu fyrir ferðamenn. Hallormsstaður og Fljótsdalur státa af stærsta skógi landsins, næsthæsta fossinum, aflmestu virkjuninni, klausturminjum, menningarsetri og vistvænni gestastofu fyrir stærsta þjóðgarð í Vestur-Evrópu. Á svæðinu eru allar tegundir af gistingu, allt frá svefnpokaplássi og tjaldsvæðum uppi í hótelsvítur og sumarhús. Og nú er hægt að njóta náttúrulauga í Laugarfelli og gista í faðmi fjallanna á Fljótsdalsheiði. Á svæðinu er einnig að finna úrval gönguleiða, hesta- og bátaleigu og yfir sumarið eru starfsræktir þar þrír veitingastaðir sem leggja áherslu á hráefni svæðsins, s.s. hrútaber, lerkisveppi og hreindýrakjöt. Frægast er þó svæðið fyrir elsta íbúann, Lagarfljótsorminn sem svo sannarlega hefur lagt sitt af mörkum þetta árið til að minna fólk á dulúð Lagarfljóts.”

Þá má benda á að kominn er út kynningarbæklingur á íslensku og ensku undir kjörorðinu Njóttu lífsins við Lagarfljót.