Bæjarstjórn vill vegagerð og flugvöll

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í gær, 4. nóvember, var samþykkt að óska eftir viðræðum við samgönguyfirvöld um að Fljótsdalshérað taki að sér rekstur Vegagerðar ríkisins á Austurlandi og Egilsstaðaflugvallar.

Með samþykkt bæjarstjórnar er tekið undir bókun bæjarráðs frá 28. október. Í bókun bæjarráðs kemur fram að fjallað var um fund sem haldinn var fyrr þann sama dag sem bæjarráðsfundurinn fór fram, með þingmönnum kjördæmisins, þar sem meðal annars var farið yfir störf og stöðugildi ríkisstofnana á svæðinu og þær stöður og stofnanir sem hafa verið lagðar niður á svæðinu undanfarin ár. 
 
Bókun bæjarráðs, sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum 4. nóvember er eftirfarandi: „Í ljósi umræðu um áframhaldandi niðurskurð og þjónustuskerðingu  ríkisins á landsbyggðinni og  þeirra áhrifa sem það getur haft á framtíðaruppbyggingu og þróun innan svæðisins,  samþykkir bæjarráð  að óska eftir viðræðum við samgönguyfirvöld um að Fljótsdalshérað taki að sér rekstur Vegagerðar ríkisins á Austurlandi og Egilsstaðaflugvallar.“

Á fundi bæjarstjórnar var jafnframt samþykkt að taka heilshugar undir bókun félags lögfræðinga á Norður- og Austurlandi frá 24.10. sl. sem hljóðaði svo: „Aðalfundur félags lögfræðinga á Norður- og Austurlandi mótmælir eindregið og varar við framkomnum hugmyndum um sameiningu og niðurlagningu ýmissa mikilvægra embætta sem  nú starfa á landsbyggðinni.  Með þeim tillögum, sem að þessu sinni snúa að héraðsdómstólum, sýslumönnum og skattstjórum, er alvarlega grafið undan þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar og lífsgæði þar skert, í flestum tilfellum án þessa að líkur séu á að öðrum og jákvæðari árangri yrði náð.
     
Félag lögfræðinga á Norður- og Austurlandi vill ennfremur árétta, að nái tillaga um sameiningu héraðsdómstóla fram að ganga, er fyrirsjáanlegt að mjög muni fjara undan þeim lögmannsstofum sem nú starfa á landsbyggðinni en þeim fjölgaði er núverandi dómstólaskipan var tekin upp. Mjög mikilvægt er, að sem víðast á landsbyggðinni bjóðist heimamönnum öflug og vönduð lögmannsþjónusta sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist annars staðar á landinu.  Með framkominni tillögu er grundvellinum kippt undan þessum mikilvæga þætti víða á landsbyggðinni.
    
Félag lögfræðinga á Norður- og Austurlandi vill sérstaklega andmæla því, að núverandi tímabundið efnahagsástand sé notað sem átylla til að koma að tillögum sem fyrst og fremst munu færa umsvif og þjónustu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.“