Bæjarráð: HSA þolir vart meiri niðurskurð

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs í liðinni viku var vakin athygli á því að með niðurskurði stjórnvalda undanfarin ár hafi verið svo þrengt að rekstri Heilbrigðisstofunar Austurlands að stofnunin sé á mörkum þess að vera rekstrarhæf.

Bæjarráð segir það áhyggjuefni að ekki sé hægt að veita þá grunnþjónustu vestræns velferðarkerfis, sem sjúkra- og heilsugæsluþjónusta hljóti að teljast, nema á afmörkuðum svæðum í nágrenni stærstu þéttbýliskjarna.

Bæjarráð væntir þess horfið verði frá frekari áformum um niðurskurð og með hækkun rekstrarframlaga verði stofnunni gert kleift að sinna hlutverki sínu, sem sé nauðsynleg vegna landshátta og fjarlægðar til helstu sjúkrastofnana landsins.

Þá leggur bæjarráð áherslu á að hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á Egilsstöðum verði fjölgað. Þörf er fyrir 30 hjúkrunarými en nú er aðeins pláss fyrir 17 manns.