Alcoafólk tekur til hendinni við Vilhjálmsvöll

Starfsmenn Alcoa og fjölskyldur þeirra ásamt Hattarfólki sem unnu að tiltekt og snyrtingu skógarsvæð…
Starfsmenn Alcoa og fjölskyldur þeirra ásamt Hattarfólki sem unnu að tiltekt og snyrtingu skógarsvæðisins við Vilhjálmsvöll.

Starfsmenn Alcoa og fjölskyldur þeirra ásamt Hattarfólki unnu að tiltekt og snyrtingu skógarsvæðisins við Vilhjálmsvöll laugardaginn 21. maí. Alls voru það 25 manns, undir leiðsögn Davíðs Þórs Sigurðarsonar, sem í sjálfboðavinnu tóku til hendinni á svæðinu, söguðu og klipptu trjágreinar ásamt því að undirbúa uppsetningu minnisvarða, um þrístökksafrek Vilhjálms Einarssonar, en minnisvarðinn verður fyrir framan Vilhjálmsvöll. Verkefnið er eitt af samfélagsverkefnum Alcoa, sem starfsmenn fyrirtækisins koma að með vinnu sinni í nærsamfélagi sínu, í gegnum félagasamtök sem starfsmenn starfa fyrir.

Davíð segir: „Verkefnið gekk frábærlega, ágætis veður var og þrátt fyrir smá kulda þá vann fólk sér til hita með því að hreinsa og taka til í kringum Vilhjálmsvöll. Undirbúningur vegna uppsetningar á minnivarða um afrek Vilhjálms Einarssonar mun halda áfram næstu vikur en koma þarf fyrir steini með texta á sem segir frá afrekinu hans, en 60 ár eru liðin frá silfurstökki Vilhjálms á ólympíuleikunum í Melbourne. Þetta verkefni mun án efa vera mikil lyftistöng fyrir svæðið og aðdráttarafl fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn. Einnig er það mikilvægt að jafn stórum afrekum og þessum sé haldið á lofti og yngri kynslóðin sem elst upp innan íþróttafélagsins Hattar þekki söguna og að allt sé mögulegt.“

Íþróttafélagið Höttur heldur áfram þeirri vinnu sem snýr að þessu verkefni en Hattardagurinn verður haldinn næsta laugardag 28. maí frá kl. 10 til 13 og eru allir velkomnir. Í lokin verður grillaðar pylsur fyrir hópinn á Vilhjálmsvelli.

Fljótsdalshérað þakkar öllu þessu fólki kærlega fyrir þeirra góða framlag við snyrtingu Vilhjálmsvallar.