3. í Ormsteiti: Karnival og hverfaleikar

Fellabær, appelsínugula hverfið, leiðir gönguna ásamt dreifbýlinu. Mynd af Facebookvef Ormsteitis.
Fellabær, appelsínugula hverfið, leiðir gönguna ásamt dreifbýlinu. Mynd af Facebookvef Ormsteitis.

Föstudagurinn 12. ágúst er helgaður hverfagrilli, karnivali og hverfaleikum. Gert er ráð fyrir að hvert hverfi fyrir sig ákveði hvaða fyrirkomulag verður á hinu hefðbundna grilli sem gert er ráð fyrir að hefjist klukkan 17:00. Hvatt er til þess að fólk komi saman, ef veður leyfir, og kyndi þannig undir stemningunni, og kolunum að sjálfsögðu. Hverfahöfðingjar viðkomandi hverfis eiga að hafa sent frá sér frekari tillögur um fyrirkomulagið.

Karnivalgangan í ár verður með öðru fyrirkomulagi en áður. Fellabær, appelsínugula hverfið, leiðir gönguna í ár, ásamt dreifbýlinu, Græna og Rauða hverfinu, og býðst þeim að grilla við Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum, en Karnivalgangan hefst einmitt þar. Þar verður til taks grill, kol og bekkir, og því ekkert því til fyrirstöðu að láta fara vel um sig þar. Gangan hefst svo frá Íþróttamiðstöðinni klukkan 19:00 og verður gengið eftir Tjarnarbrautinni, þar sem íbúar annarra hverfa bætast hægt og rólega við. Upplýsingum um karnivalið og hverfahátíðina hefur verið dreift í öll hús á Héraði.

Hverfaleikarnir hefjast síðan klukkan 19:30 á Vilhjálmsvelli, eftir að hverfin hafa öll marserað inn á svæðið og Héraðshöfðinginn hefur sett leikana. Fyrir utan spennandi keppni á milli hverfanna í furðuleikum, mun Sirkus Íslands sýna listir sína og Prins Póló flytja nokkur lög. Karamelluregnið verður á sínum stað og Danshljómsveit Friðjóns mun stýra brekkusöng.

Dj Doddi Mix mun síðan halda upp stuði á Kaffi Egilsstöðum frá klukkan 23:00.