17. júní og nýjar sýningar opnaðar í Safnahúsinu og Sláturhúsinu

Hátíðarhöld þjóðhátíðardagsins verða að venju í Lómatjarnargarði.
Hátíðarhöld þjóðhátíðardagsins verða að venju í Lómatjarnargarði.

Dagskrá Þjóðhátíðardags Íslendinga, þann 17. júní, fer fram á Fljótsdalshéraði í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, eins og undan farin ár. Þá verða opnaðar þrjár nýjar sýningar í Sláturhúsinu menningarsetri og í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Þetta eru sýningarnar Nr. 2 Umhverfing, Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi? og Gull og gersemar.

Þjóðhátíðardagskráin:

10:30 - Hátíðarmessa fyrir alla fjölskylduna
Prestur sr. Þorgeir Arason og kór Egilsstaðakirkju syngur

11:00 - Skrúðganga frá Egilsstaðakirkju í Tjarnargarðinn
Fjölmennum í hátíðarskapi

11:30 - Fimleikasýning keppnishópa fimleikadeildar Hattar

12:00 - Kassabílaþrautir á sparkvellinum við Egilsstaðaskóla Hvetjum alla til að mæta með kassabíla og taka þátt í skemmtilegri keppni. Skráning og frekari upplýsingar gefur Kristdór á netfangið kristdor@dekkjahollin.is fyrir 15. júní nk.

11:45-13:00 - LEGO samkeppni
Móttaka verka verður við sviðið í Tjarnargarðinum. Börn sem eru á fimmta til tólfta aldursári skila inn verkum úr legókubbum. Þemað er ,,Náttúra & umhverfi“

12:00-15:00 - Andlitsmálun í Tjarnargarðinum fyrir börn, 12 ára og yngri

12:00-15:00 - Hoppukastalar

13:00 - Hátíðardagskrá á sviði:

  • Kirkjukór Egilsstaðakirkju
  • Hátíðarræða
  • Tónlistaratriði 
  • Fjallkonan 
  • Árleg viðurkenning Rótary
  •  Tónlistaratriði
  • Húslestur
  • Verðlaunaafhending, LEGO samkeppni
  • Verðalaunaafhending, kassabílaþrautir
  • Tónlistaratriði

Sýningar í Safnahúsinu:

Tvær nýjar sýningar verða opnaðar klukkan 15:30 í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Annars vegar er um að ræða sýninguna Nr. 2 Umhverfing, sem er samsýning yfir 30 listamanna sem allir tengjast Fljótsdalshéraði. Að hluta til fer þessi sýning einnig fram í Sláturhúsinu og Dyngju. Hins vegar er sýningin Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? En tilefni þeirrar sýningar er 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Tekið skal fram að Minjasafn Austurlands verður opnað klukkan 10 þennan dag og er opið til kl. 18.00 og það er frítt inn á Minjasafnið í tilefni dagsins.

Sumarsýning Sláturhússins 2018:

Að venju stendur Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs fyrir sumarsýningu í Sláturhúsinu. Að þessu sinni verða tvær sýningar opnaðar á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

 Sýningin Nr. 2 Umbreyting er samsýning 35 myndlistarmanna sem tengdir eru Fljótsdalshéraði með einum eða öðrum hætti. Nr. 2 Umbreyting er önnur sýningin sem listahópurinn Academy of the Senses stendur fyrir og var sú fyrri, Umbreyting, staðsett í Skagafirði. Academy of the Senses hyggjast standa fyrir fleiri Umbreytingarsýningum á öðrum stöðum á landinu á komandi árum. Listafólkið sem á verk á sýningunni eru: Anna Eyjólfsdóttir, Aron Kale, Björg Steinunn Helgadóttir, Borghildur Tumadóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Heiðdís Hólm, Helgi Þórsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kolbeinn Magnússon, Kristín María Ingimarsdóttir, Laura Ford, Magnús Pálsson, Margrét Norðdahl, Marietta Maissen, Ólöf Birna Blöndal, Ólöf Björk Bragadóttir, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur Behrens, Pétur Magnússon, Ragnhildur Lára Weisshappel, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí, Saga Unnsteinsdóttir, Sigrún Sverrisdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Steinunn Þórarinsdóttir, Tumi Magnússon, Viktor Pétur Hannesson, Vilhjálmur Einarsson, Yst Ingunn St. Svavarsdóttir, Þórarinn Ingi Jónsson, Þórdís Alsa Sigurðardóttir, Þórunn Dís og Þórunn Eymundardóttir. Sýningin Nr. 2 Umbreyting er einnig í Safnahúsinu og í Dyngju.

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs setur einnig upp sýninguna Gull og gersemar, leikfangasýningu sem gefur svipmynd af þeim gullum sem börn á Héraði og í nágrenni hafa leikið sér með í gegnum tíðina.

Báðar sýningarnar verða opnaðar sunnudaginn 17. júní og munu verða opnar þriðjudaga til laugardaga, frá 11:00 – 16:00, til 7. september 2018.